Skattaskjólsmálum sem komið hafa til rannsóknar hjá skattrannsóknarstjóra fjölgar stöðugt og þau eru nú orðin sjötíu til áttatíu.

Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í morgun. Rannsókn er lokið í rúmlega þrjátíu málum. Tæplega þrjátíu önnur eru til rannsóknar og er rannsókn sumra þeirra langt á veg komin. Til viðbótar bíða tíu til tuttugu rannsóknir.

„Þessi mál hafa verið að berast embættinu jafnt og þétt frá hruni. Mér sýnist enn ekkert lát vera á þessu," segir Bryndís Kristjánsdóttir, skattrannsóknarstjóri, í samtali við Fréttablaðið.

Bryndís getur þess að af þeim þrjátíu málum sem lokið er hafi verið fallið frá rannsókn í átta tilvikum. Sjö málum hefur verið vísað til sérstaks saksóknara. Búið er að leggja á skatt í langstærstum hluta þeirra mála sem lokið er.

Þá kemur fram að ríkisskattstjóri hafa óskað eftir yfirliti frá kreditkortafyrirtækjunum yfir aðila sem væru með erlend kreditkort hér. Meðal þeirra reyndist vera töluverður fjöldi Íslendinga. Þá kemur einnig fram að langflest málanna tengist Lúxemborg en embætti skattrannsóknarstjóra fær ekki upplýsingar þaðan sem stendur.