Ef niðurstöður skoðanakönnunar sem gerð var í gær og fyrrakvöld yrðu niðurstöður kosninganna, þá yrðu Sjálfstæðisflokkur og Píratar stærstir með svipað mikið fylgi.

Vinstri græn yrði þriðji stærsti flokkurinn, en hann bætir við sig 2,5 prósentustigum milli vikna, og svo yrðu Björt framtíð, Framsóknarflokkurinn, Samfylkingin og Viðreisn hvert um sig álíka stór.

Samfylkingin minnst

Þannig kæmust sjö flokkar inn á þing á komandi kjörtímabili. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag, en skoðanakönnunin var gerð af þeim ásamt Stöð 2 og Vísi.

Píratar fengu í könnuninni 22,8% fylgi, Sjálfstæðisflokkurinn 22,7%, Vinstri græn 15,1%, en þeir voru með 12,6% í síðustu könnun, Framsóknarflokkurinn fengi 8,5%, Viðreisn fengi 8,4% og Björt framtíð fengi 8,2%.

Samfylkingin fengi minnsta fylgið eða 7,3%, en önnur 7% ætla að kjósa aðra flokka en þá sem áður hafa verið nefndir. Munurinn milli síðustu fjögurra flokkanna er þó innan skekkjumarka.

Sjálfstæðisflokkur stærstur ef horft er yfir lengra tímabil

Þegar kannanir sem hafa verið gerðar á tímabilinu frá 26. september til 10. október eru teknar saman þá er Sjálfstæðisflokkurinn með 28,2% fylgi, Píratar með 20,6%, VG með 13,9%, Framsóknarflokkurinn með 11%, Samfylkingin með 7,5%, Viðreisn með 7,3% og Björt framtíð með 5,6% fylgi.

Í könnuninni var hringt í 1.269 manns dagna 10. og 11. október þangað til náðist í 801 manna úrtak, samkvæmt lagskiptu slembiúrtaki. Svarhlutfallið var 63,1% og alls tóku 67,2% þeirra sem náðist í afstöðu til spurningarinnar. 13,2% sögðust óákveðin, 5,6% segjast ekki ætla að kjósa og 13,1% neituðu að gefa upp afstöðu sína.