Undirritaðir hafa verið samningar um smíði á sjö nýjum togurum fyrir fjögur íslensk útgerðarfyrirtæki að því er Fiskifréttir greina frá. Samanlagt hljóðar samningurinn við norsku skipasmíðastöðina Vard Holdings upp á 700 milljónir norskra króna, eða sem samsvarar um 8,7 milljörðum íslenskra króna að því er segir á vef Business Times .

Segir félagið í tilkynningu til kauphallarinnar í Singapúr að hönnuðirnir hefðu í samstarfi við kaupendurnar hannað nýja gerð togara sem gerðu fiskveiðar enn hagkvæmari við strendur Íslands. Tvö skip verða smíðuð fyrir útgerðarfélagið Berg-Huginn, dótturfélag Síldarvinnslunnar; önnur tvö skip fyrir Gjögur, tvö fyrir Skinney – Þinganes og eitt fyrir Útgerðarfélag Akureyringa að því er fram kemur á vef Síldarvinnslunnar.

Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja, sem rekur ÚA, segir nýsmíðina lið í endurnýjun botnfiskveiðiflota fyrirtækisins í samtali við Morgunblaðið . Hann segir lækkun norsku krónunnar að þakka að norska skipasmíðastöðin geti nú keppt við lönd eins og Pólland, Spán og Tyrkland. „Staða Norðmanna endurspeglar samkeppnisstöðu Íslendinga varðandi sölu á fiski,“ segir Þorsteinn Már.

Skipin sem smíðuð eru fyrir Berg-Hugin er ætlað að leysa af hólmi Vestmanney VE og Bergey VE. Áætlað er að smíði hvors skips taki 14 mánuði og er gert ráð fyrir að fyrra skipið verði afhent kaupanda í marsmánuði 2019 og hið síðara í maí 2019. Skipin verða 28,95 m að lengd og 12 m að breidd. Í skipunum verða tvær aðalvélar með tveimur skrúfum og ný kynslóð rafmagnsspila, en nánar má lesa um málið á vef Fiskifrétta .