Kolbeinn Árnason lögfræðingur var nýverið ráðinn framkvæmdastjóri Landssambands íslenskra útvegsmanna, LÍU. Hann hefur störf í ágúst og tekur við starfinu af Friðriki J. Arngrímssyni sem hefur gegnt starfinu í rúm 13 ár.

Kolbeinn hefur frá árinu 2008 starfað hjá slitastjórn Kaupþings sem framkvæmdastjóri lögfræðideildar. Hann er giftur Evu Margréti Ævarsdóttur lögmanni. Saman eiga þau eina dóttur sem er ellefu ára.

Árið 1999 var Kolbeinn ráðinn skrifstofustjóri alþjóðaskrifstofu sjávarútvegsráðuneytisins og síðar fiskveiðistjórnarskrifstofu ráðuneytisins. Þar var hann í rúm sex ár. Störf hans hafa síðan tengst sjávarútvegi, ýmist beint eða samhliða öðrum störfum. Meðal annars á hann sæti í samninganefnd Íslands í aðildarviðræðum við Evrópusambandið og er formaður samningahópsins um sjávarútvegsmál.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér .