Drake Management, sjóðastýringarfyrirtæki í New York sem stofnað var af stjórnendum þess og Kaupþingi árið 2001, hefur lokað stærsta vogunarsjóði sínum, Drake Global Opportunities.

Sjóðurinn skilaði einni mestu ávöxtun vogunarsjóða á sínum tíma en tapaði 24% af verðgildi sínu í fyrra, að sögn Financial Times en þetta kemur fram í Vegvísi Landsbankans.

Samkvæmt árskýrslu Kaupþings fyrir árið 2007 á íslenski bankinn 20% hlut í Drake Management.

Um miðjan mars síðastliðinn var greint frá því að sjóðurinn væri í vanda staddur og segir Greiningadeild Landsbankans að stjórnendur Drake hafi þurft að takmarka úttektir úr sjóðnum þegar stefndi í að fjárfestar hyggðust taka út stóran hluta innistæðu sinnar.

Sá segir í Vegvísi að í kjölfarið hafi Drake lagt fram þá tillögu fyrir fjárfesta að sjóðnum yrði skipt í tvennt, annarsvegar yrði búinn til sjóður sem myndi greiða út inneignina í áföngum og síðan lagður niður en hinsvegar yrði hluti fjármuna Global Opportunities notaðir til að stofna nýjan vogunarsjóð.

„Fjárfestar létu hinsvegar sterklega í ljós þá ósk að sjóðnum yrði lokað og nýr sjóður myndi sækja sér nýtt fjármagn,“ segir í Vegvísi.

Þar segir jafnframt að sjóðsstjórar Global Opportunties hafi veðjað á það síðastliðið haust að lánsfjárkreppan stæði stutt yfir, hlutabréf í Bandaríkjunum myndu hækka í verði með haustinu en  ríkisskuldabréf lækka.

Í reynd hrapaði verð hlutabréfa og fé streymdi í öruggara skjól á skuldabréfamarkaði með þeim afleiðingum að skuldabréf hækkuðu í verði.

Global Opportunties sjóðurinn var metinn á um 2,5 ma USD áður en yfir lauk. Drake rekur tvo minni vogunarsjóði sem samanlagt eru með um 1,5 ma.USD í stýringu.

Ákvörðun um framhald á rekstri þeirra verður tekin fyrir lok mánaðarins. Þá rekur Drake skuldabréfasjóði sem taka ekki skortstöður og eru taldir um 8 ma.USD að verðmæti.