Sjóðir á vegum fjármálafyrirtækisins Gamma hafa búið til Leigufélag Íslands. Í leigufélaginu eru nú um 350 íbúðir á höfuðborgarsvæðinu. Fram kemur í Markaðnum í dag að ætlunin er að fjölga íbúðunum um 850 á næstu þremur árum. Gísli Hauksson, forstjóri Gamma, segir í samtali við blaðið hugmyndina þá að reka klassískt leigufélag að skandinavískri fyrirmynd þar sem fólk geti leigt íbúðir til langs tíma.

Eigendur Leigufélagsins eru sjóðirnir Eclipse og Novus.

Íbúðir í leigufélaginu eru að mestu tveggja til þriggja herbergja. Gísli segir um 90% íbúðanna í langtímaleigu, þ.e. í 12 mánuði eða lengur, en 30-40 íbúðir í skammtímaleigu til ferðamanna í miðbænum.