Staða tveggja fagfjárfestasjóða í rekstri GAMMA, þ.e. GAMMA: Novus og GAMMA: Anglia, er umtalsvert verri en gert hafði verið ráð fyrir. „Hefur skráð gengi þeirra verið lækkað sem því nemur,“ segir í tilkynningu frá Kviku banka .

Kvika segir að niðurfærslan muni ekki hafa áhrif á afkomu bankans á árinu, en áætlað er að hagnaður Kviku á árinu verði 2,9 milljarðar króna á ári fyrir skatta.

Gengið var frá kaupum Kviku á Gamma fyrr á þessu ári og unnið er að sameiningu og endurskipulagningu eigna- og sjóðastýringastarfsemi samstæðunnar í eitt dótturfélag. Unnið er að því að færa starfsemi eignastýringar Kviku inn í Júpíter og í kjölfarið á að sameina Gamma og Júpíter. Við þá vinnu kom staða sjóðanna í ljós.

Viðskiptablaðið fjallaði um stofnun GAMMA: Anglia sumarið 2017 . Sjóðurinn var fimm milljarða fasteignasjóður í London sem fjárfesti í íbúðarhúsnæði og atvinnuhúsnæði. Gísli Hauksson, þáverandi forstjóri Gamma, sagði hugmyndina vera að nýta sterka krónu og veikt pund til þess að komast inn á fasteignamarkaðinn í London á góðu verði.

GAMMA:Novus er fagfjárfesta sjóður um nýbyggingar og á Upphaf fasteignafélag.

Máni tekur við stjórn Gamma

Þá segir Kvika jafnframt að Valdimar Ármann hafi látið af störfum sem forstjóri GAMMA og stjórn félagsins hafi ráðið Mána Atlason sem framkvæmdastjóra. Máni hefur lokið BA og MA prófi í lögfræði frá Háskólanum í Reykjavík og hefur starfað á lögfræðisviði Kviku frá árinu 2015, auk þess að vera lögmaður og ritari stjórnar Júpíters. Áður starfaði Máni hjá LOGOS lögmannsþjónustu í Reykjavík og London. Hann er með lögmannsréttindi og hefur lokið prófi í verðbréfaviðskiptum.