*

föstudagur, 5. mars 2021
Innlent 11. september 2020 11:41

Sjóðir geta skráð sig fyrir áskrift

Ákvæði laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda girða ekki fyrir að lífeyrissjóðir geti skráð sig fyrir áskriftarréttindum í útboði Icelandair.

Jóhann Óli Eiðsson
Unnur Gunnarsdóttir, varaseðlabankastjóri fjármálaeftirlits.
Haraldur Guðjónsson

Ákvæði laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, þess efnis að afleiður skuli skráðar á skipulegum verðbréfamarkaði, girða ekki fyrir að lífeyrissjóðir geti skráð sig fyrir áskriftarréttindum í komandi hlutafjárútboði Icelandair Group. Önnur túlkun laganna hefði leitt til þess að lagabreyting, sem samþykkt var fyrir helgi, hefði ekki náð markmiði sínu.

Sem kunnugt er hefur Icelandair í hyggju að safna nýju hlutafé í næstu viku. Áætlað er að sækja 20 milljarða hluta á genginu einum og mögulega þremur milljörðum betur verði umframeftirspurn í útboðinu. Keyptum hlutum fylgja áskriftarréttindi til að kaupa allt að fjórðung til viðbótar yfir tveggja ára tímabil. Verð áskriftarréttindanna fer stighækkandi frá útboðsgengi miðað við 15% árshækkun.

Á nýafstöðnum þingstubbi var samþykkt með hraði breyting á fyrrnefndum lögum. Hún felur í sér að lífeyrissjóðum var gert heimilt að fjárfesta í afleiðum sem fela „aðeins í sér kauprétt eða áskriftarréttindi“. Áður var lífeyrissjóðum eingöngu heimilt að fjárfesta í afleiðum að því gefnu að þær drægu úr áhættu sjóðsins. Óheimilt var því að fjárfesta í afleiðum sem höfðu óbreytta áhættu í för með sér en talið var að áskriftarréttindin myndu falla í þann flokk.

Þar með er þó ekki öll sagan sögð en frá því að lagabreytingin var samþykkt hafa menn klórað sér í kollinum yfir því hvort breytingin dugi til. Ástæðan fyrir því er að í sömu lögum er kveðið á um að afleiður skuli skráðar á skipulegum verðbréfamarkaði, ella skuli mótaðili lífeyrissjóðs lúta eftirliti sem fjármálaeftirlit Seðlabankans (FME) metur gilt. Samkvæmt útboðslýsingu Icelandair, sem birt var seint síðastliðinn þriðjudag, verða téð áskriftarréttindi skráð þann 15. október næstkomandi og því vaknaði sú spurning hvort lífeyrissjóðir gætu skráð sig fyrir þeim fyrir það tímamark.

„Þetta er mál sem við höfum skoðað rækilega og ofan í kjölinn. Alltaf þegar um frumútgáfu hlutabréfa er að ræða þá líða einhverjir dagar frá útgáfu þeirra og þar til þau hafa verið skráð á markaðinn. Það hefur aldrei verið litið svo á að lífeyrissjóðir geti ekki tekið þátt á frummarkaði heldur aðeins eftirmarkaði,“ segir Unnur Gunnarsdóttir, varaseðlaseðlabankastjóri fjármálaeftirlits, við Viðskiptablaðið.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Stikkorð: Alþingi Icelandair