Vogunarsjóðir, aðallega bandarískir, hafa sýnt skuldum gríska ríksins áhuga undanfarna mánuði. Þetta kemur fram á vef bandaríska dagblaðsins Wall Street Journal .

Frá því að kröfuhafar landsins færðu 200 milljarða evra skuldir niður í 60 milljarða evra, hafa vogunarsjóðir keypt kröfur af fjárfestum sem hafa viljað losna út úr stöðum sínum.

Meðal þessara sjóða er Greylock Capital Management, sem er staðsettur í New York, hefur sérhæft sig í grískum skuldum. Um 20% af eignasafni sjóðsins eru bundin í grískum ríkisskuldabréfum.

Kaupa á miklum afslætti

Verðið á kröfunum hefur hækkað í haust vegna meiri eftirspurnar. Vogunarsjóðurinn Third Point, sem er með 8 milljarða Bandaríkjadala í stýringu, greiddi að meðaltali 17 evrusent fyrir hverja evru í júlí og ágúst. Það gerir 83% afslátt. Fram kemur í umfjöllun Wall Street Journal að sjóðurinn hafi hagnast um nokkuð hundruð milljónir dala á viðskiptunum.

Algengt verð mun þó vera á milli 12 til 20 evrusent.

Þótt viðskipti tengd Grikklandi hafi ekki skilað eigendum grískra ríkisskuldabréfa sem þátt tóku í björgunaraðgerðum landsins nokkrum sköpuðum hlut þá gegnir öðru máli nú. Blaðið segir nefnilega að þótt Grikkir verði gjaldþrota þá reikni stjórnendur vogunarsjóða almennt með því að fá arð af fjárfestingu sinni.