Við lækkandi vaxtastig og vaxandi verðbólgu kjósa sífellt fleiri sparifjáreigendur að fjárfesta í sjóðum til þess að freista þess að fá jákvæða raunávöxtun. Íslandssjóðir eru nú með yfir 200 milljarða króna í stýringu í sjóðum sem aðgengilegir eru almenningi, mest allra sjóðastýringarfélaga, en vöxtur eigna í stýringu hefur verið umtalsverður undanfarin ár.

„Markaðurinn hefur verið að byggjast töluvert upp á síðustu árum, eignir í stýringu Íslandssjóða hafa um það bil tvöfaldast á fjórum árum. Sífellt fleiri eru að átta sig á því hve hagkvæmt það er að ávaxta peninga í gegnum sjóði," segir Kjartan Smári Höskuldsson, framkvæmdastjóri Íslandssjóða.

Heimsfaraldur kórónuveirunnar hefur haft mikil áhrif á markaðsaðstæður, en eignastýring hefur þó gengið vel, að sögn Kjartans Smára. Hann segir sparnað heimilanna hafa aukist jafnt og þétt síðustu árin og náð ákveðnu hámarki í faraldrinum, en á sama tíma hafi gengið vel á öllum helstu eignamörkuðum, bæði innanlands og erlendis.

Kjartan Smári segir helstu áskorunina við eignastýringu fram á veginn vera að aðlaga eignasöfn að breyttum markaðsaðstæðum.

„Í okkar viðskiptavinahópi eru margir sterkir skuldabréfaeigendur og stóra verkefnið núna er að ráðleggja fólki hvernig það getur stillt safnið sitt í takt við breytt vaxtalandslag, þannig að fólk geti átt von á því að fá jákvæða raunávöxtun án þess að áhætta verði of mikil," segir Kjartan Smári.

Eignadreifing lykilatriði

Horft fram á við skiptir miklu máli að huga að eignadreifingu, að sögn Kjartans Smára. „Vel dreifð eignasöfn, með vel dreifðri áhættu, ættu að skila góðri ávöxtun fram á veginn, sem fyrr. Dreifingin er lykilatriði við svona aðstæður, að vera ekki með allt saman í einum eignaflokki." Kjartan Smári bendir á að æskilegt sé að eignadreifing nái út fyrir landsteinana.

„Íslandssjóðir hafa lengi verið í samstarfi við stóra erlenda aðila á borð við Vanguard og Storebrand, sem gera fjárfestum kleift að ná enn meiri eignadreifingu. Þegar fjárfest er í slíkum sjóðum er eigninni samstundis dreift niður á mörg hundruð fyrirtæki á öllum helstu mörkuðum heims," segir Kjartan Smári.

Hann bendir jafnframt á að í fjárfestingu í sjóðum felist töluvert skattalegt hagræði. „Sjóðirnir geta keypt og selt án þess að greiða fjármagnstekjuskatt. Viðskiptavinurinn greiðir ekki fjármagnstekjuskatt fyrr en hann hefur innleyst hagnað með því að selja sjóðinn. Viðskiptavinurinn getur þannig átt mun virkari viðskipti í gegnum sjóði án þess að koma hreinlega illa út úr því skattalega séð."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .