Uppljóstranafyrirtækið Wikileaks átti tæpar 100 þúsund evrur, rétt rúmar 15 milljónir króna, í hirslum sínum í lok júní. Til samanburðar átti fyrirtækið 800 þúsund evrur í desember árið 2010. Í netútgáfu bandaríska stórblaðsins Wall Street Journal segir að hratt hafi gengið á fjármuni Wikileaks á einu og hálfu ári og stefni í að sjóðir fyrirtækisins verði senn tómir verði ekkert að gert.

Fyrirtækið er rekið fyrir fjárframlög. Þau hafa hins vegar verið af skornum skammti þar sem kortafyrirtækin Visa og Mastercard lokuðu fyrir fjárframlög til fyrirtækisins í desember árið 2010 eftir að síðan birti svokölluð sendiráðsskjöl. Íslenska fyrirtækið Datacell, sem var milliliður Wikileaks hér á landi, fór í mál gegn Valitor vegna málsins og fór með sigur af hólmi í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir helgi.

Upplýsingar Wall Street Journal eru byggðar á tölulegum upplýsingum frá þýsku fyrirtæki sem heldur utan um uppgjör Wikileaks. Bent er á það í umfjöllun blaðsins að á fyrri hluta ársins hafi rekstrarkostnaður Wikileaks numið 246,6 þúsund evrum. Þar af nam kostnaður við tæknimál 20 þúsund evrum, reikningurinn fyrir það sem er kallað kynningar- og samskipti hljóðar upp á tæpar 105 þúsund evrur og lagaleg ráðgjöf kostaði Wikileaks tæpar 18 þúsund evrur. Þá nam svonefndur stjórnunarkostnaður 6.100 evrum. Á sama tíma námu fjárframlög til Wikileaks aðeins numið 32.800 evrum.

Blaðið segir stjórnendur Wikileaks hafa lýst því yfir, að þeir þurfi að safna einni milljón evra að lágmarki til að geta rekið fyrirtækið.