Tveir bandarískir sjóðir, sem saman eiga stóran hluta þeirra aflandskrónueigna sem teknar eru fyrir í frumvarpi Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, hafa lýst yfir óánægju með frumvarpið. Bjarni kynnti frumvarpið fyrir helgi og er stefnt að því að það verði orðið að lögum fyrir opnun markaða á morgun. Felur það í sér að eigendur aflandskróna, þar á meðal vogunarsjóðurinn Autonomy Capital og fjárfestingarsjóðurinn Eaton Vance, verður boðið að skipta krónunum fyrir gjaldeyri með miklum afföllum. Annars verði krónurnar læstar inn á geymslureikningum með litla sem enga vexti.

Autonomy Capital er með um 3,3 milljarða dollara í stýringu en Eaton Vance, eitt elsta sjóðstýringarfyrirtæki heims, er með um 300 milljarða dollara í stýringu. Sjóðirnir segja í umsögn sinni um frumvarp fjármálaráðherra, sem undirrituð er af Pétri Erni Sveinssyni og Magnúsi Árna Skúlasyni, að þar séu ekki færð rök fyrir þörf á þeim aðgerðum sem nefndar eru í frumvarpinu. Þeim fullyrðingum að þessar krónur muni leita úr landi um leið og kostur gefst er hafnað. Segir í umsókninni að sjóðirnir vilji fjárfesta á Íslandi til framtíðar.

Þá eru sjóðirnir þeirrar skoðunar að frumvarpið brjóti gegn eignarrétti þeirra með bótaskyldum hætti. Segja þeir að í frumvarpinu sé í fyrsta skiptið settt fram skilgreining á hugtakinu aflandskrónur og að sú skilgreining lýsi ekki krónueignum þessara sjóða.