Óðaverðbólga og pólitískur óstöðuleiki hafa haft gríðarlega neikvæð áhrif á lífskjör í Venesúela. Samkvæmt Alþjóðagjaldeyrissjóðnum á seðlabanki landsins einungis 10,9 milljarða dala og eru þeir fjármunir að mestu bundnir í gulli. Í byrjun seinasta árs voru sjóðir seðlabankans aftur á móti metnir á 24 milljarða dala.

Ríkið á eftir að greiða 11 milljarða dala í afborganir af skuldabréfum. Greiðslurnar eiga að eiga sér stað í ár og á næsta ári. Ólíklegt er að þjóðin nái að standa við skuldbindingar sínar, en auk þessara skuldabréfa, skuldar ríkið erlendum olíufyrirtækjum milljarða.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn spáir því að verðbólgan muni ná 500% í ár og muni rjúka upp í 1660% á næsta ári. Verðbólgan hefur haft svo umtalsverð áhrif á lífskjör að landsmenn geta ekki lengur svalað grunnþörfum sínum.

Spákaupmenn á Wall Street telja það einungis vera tímaspursmál hvenær þjóðin fari endanlega á hausinn. Ef það gerist ekki í ár, þá gerist það á næsta ári.