„Sumar stéttir geta haldið óskertum tekjum og fengið fæðingarorlof til viðbótar,“ segir Leó Örn Þorleifsson, forstöðumaður Fæðingarorlofssjóðs, í samtali við Fréttablaðið. Þar kemur fram að Fæðingarorlofssjóður þurfi að endurgreiða fólki stærstan hluta þeirra upphæða sem innheimtar hafi verið síðustu ár vegna ofgreiddra fæðingarorlofsbóta. Er gert ráð fyrir 70 milljarða framlagi til sjóðsins vegna þessa í fjáraukalögum.

Leó Örn segir að með áliti umboðsmanns Alþingis, fyrst 2012, svo 2013 og í nýju óbirtu áliti, hafi komið í ljós að framkvæmd á frádráttarreglu hefði ekki staðist. Henni hafi verið beitt þegar fólk fór umfram ákveðin tekjumörk í orlofi sínu á meðan það þáði greiðslur. Leó segir þá sem ráða sér sjálfir í vinnu frekast geta nýtt sér gloppuna.