Norsk stjórnvöld hafa tekið þá ákvörðun að olíusjóðnum sé ekki heimilt að kaupa í óskráðum félögum, þrátt fyrir óskir sjóðsins sjálfs og gegn ráðleggingum nefndar ríkisstjórnarinnar sjálfar um málið.

Segja stjórnvöld að ástæðan sé að það ógni bæði gegnsæi í ákvörðunum sjóðsins og kostnaði í rekstri sjóðsins.

„Rekstur okkar sameiginlega sparnaðarsjóðs er góður,“ segir fjármálaráðherra Noregs, Siv Jensen. „Hann er gegnsær, ábyrgur, til langtíma og hagkvæmur.“

Sjóðurinn hefur beðið um heimild til að bæta við fjárfestingarkostum til að dreifa áhættunni. Var sjóðnum á síðasta ári leyft að hækka hlutfall hlutabréfa af fjárfestingum úr 60% í 70% á sama tíma og hann glýmir við að vextir eru í sögulegu lágmarki.

Samkvæmt Bloomberg fréttastofunni þá er sjóðurinn kominn að krossgötum því þrátt fyrir að eignir sjóðsins hafi vaxið gríðarlega, þá hafa arðgreiðslur frá olíugeiranum í landinu nánast þurrkast upp. Hafa stjórnendur sjóðsins sagt að ekki sé hægt að vænta þess að sjóðurinn greiði út jafnháar upphæðir og hingað til hefur verið langt fram í tímann.

Í mars á síðasta ári höfnuðu stjórnvöld einnig að sjóðurinn fjárfesti í óskráðum innviðum, en nú virðist sem líkur á að það verði leyft séu að aukast. Nú hefur ríkisstjórnin ákveðið að skoða frekar hvort fjárfesting í innviðum endurnýjanlegrar orku gæti passað inn í umhverfisstefnu sjóðsins.

Þrátt fyrir að flestir stjórnmálaflokkar í Noregi hafi sagt að sjóðurinn eigi ekki að vera tæki í utanríkispólítík landsins, þá hefur sjóðurinn byrjað að beina fjárfestingum sínum í auknum mæli eftir pólítískum línum.

Þannig hefur hann bannað fjárfestingar í tóbaki, sumum vopnum og kolum, ásamt því að útiloka fyrirtæki sem brjóta á mannréttindum eða spilla umhverfinu. Í Noregi olli sjóðurinn nokkrum áhyggjum á mörkuðum þegar hann mælti með því að hann seldi sig út úr olíu og gasiðnaði til að draga úr því hve háð Noregur er háð jarðefnaeldsneytum.