Eignir verðbréfa-, fjárfestingar- og fagfjárfestasjóða námu 600,3 milljörðum króna í lok mars. Hækkunin nemur því um 17,9 milljörðum króna milli mánaða. Þetta kemur fram á heimasíðu Seðlabanka Íslands .

Samkvæmt tölum bankans námu eignir verðbréfasjóða 161,3 milljörðum króna í mánuðnum og lækkuðu því um 3 milljarða króna milli mánaða. Eignir fjárfestingarsjóða námu 298,8 milljörðum króna og hækkuðu um 18,3 milljarða króna. Eignir fagfjárfestasjóða námu 140,3 milljarða króna og hækkuðu því um 2,6 milljarða króna .

Bankinn segir að hækkun fjárfestingarsjóða sé að mestu til komin vegna hækkunar innlána, sem jukust um 11,5 milljarða króna milli mánaða.

Í lok mars var heildarfjöldi sjóða 163, þ.e. 49 verðbréfasjóðir, 51 fjárfestingarsjóður og 63 fagfjárfestasjóðir.