*

þriðjudagur, 3. ágúst 2021
Innlent 5. nóvember 2013 13:43

Sjóðsfélagar MP hafa fengið 3,6 milljarða til baka

Júpíter rekstrarfélag hefur greitt sjóðsfélögum Peningamarkaðssjóðs MP 88,47%. Þetta er hæsta hlutfall sem sjóðfélagar hafa fengið.

Jón Aðalsteinn Bergsvein
Ragnar Páll Dyer hjá Júpíter rekstrarfélagi.
Birgir Ísl. Gunnarsson

„Við höfum verið að greiða út í skömmtum og töldum nú ekki stætt að bíða lengur,“ segir Ragnar Páll Dyer, framkvæmdastjóri Júpíter rekstrarfélags. Félagið greiddi nýverið 25 milljónir króna til sjóðsfélaga sem áttu inni á Peningamarkaðssjóði MP. Þetta var níunda greiðslan til sjóðsfélaga. Í sjóðnum voru rúmar 4,1 milljarðar króna og hafa þegar verið greiddar út 88,47% af markaðsvirði sjóðsins eins og það var þegar sjóðnum var lokað í bankahruninu 6. október árið 2008. Það gera í kringum 3,6 milljarða króna sem sjóðsfélagar hafa fengið greitt út. Hluthfallið er það hæsta sem sjóðsfélagar peningamarkaðssjóða hafa fengið úr sjóðum bankanna. 

Sjóðurinn átti m.a. víxil á Existu sem varð að Klakka. Greiðsla skilaði sér til sjóðsins þegar VÍS, sem var í eigu Klakka, var skráð á markað í apríl á þessu ári.

Enn eru nokkrar eignir eftir í Peningamarkaðssjóði MP, að sögn Ragnars. Þar á meðal er víxill á Straumborg, fjölskyldufélag Jóns Helga Guðmundssonar í Byko. Félagið hélt m.a. utan um eignarhlut í Kaupþingi, lettneska bankanum Norvik og fjárfestingar í olíu- og orkuiðnaði. Féalgið fékk heimild til að leita nauðasamninga í febrúar á þessu ári en þrír kröfuhafar fóru fram á að henni skyldi hafnað. Hæstiréttur úrskurðaði svo fyrir um þremur vikum að slíkir annmarkar væru á frumvarpi að nauðasamningnum að hérðsdómi hefði borið að synja Straumborg um heimild til nauðasamnings. Eins og fram kom í Viðskiptablaðinu í síðustu viku hefur verið sótt um heimild til nauðasamnings að nýju.

Ragnar segir að hefði nauðasamningarnir frá í vor verið samþykktir þá hefði Straumborg greitt víxilinn og hægt að greiða fyrr út til sjóðsfélaga. Þegar nauðasamningi var hafnað hafi hins vegar ekki talist stætt að bíða lengur og því sjóðsfélögum greitt úr sjóðnum það sem hafði þegar skilað sér í hús.