Sprota- og tæknivefurinn Northstack, ásamt Kristjáni Inga Mikaelssyni, hefur stofnað nýjan tveggja milljón króna sjóð til að styrkja viðburði og fjármagna samverustundir fólks í tæknigeiranum. Að sögn aðstandenda sjóðsins er mikilvægt er að skapa vettvang þar sem tæknispekúlantar landsins geta komið saman og miðlað af reynslu sinni.

“Erlendis tíðkast svonefnd meetup, þar sem fólk úr tæknigeiranum hittist og deilir reynslu og sögum af nýrri tækni og miðlar þekkingu. Svona viðburðir stuðla að mikilli grósku í tæknigeiranum,” segir Kristján Ingi Mikaelsson. Hann tekur fram að slíkir viðburðir tíðkist einnig á Íslandi, en markmiðið með sjóðnum er að fjölga þeim enn frekar og auðveld það að búa til ný. Sjóðurinn nýtur stuðnings Samtaka upplýsingatæknifyrirtækja (SUT), Tempo, Investa, Frumtak Ventures og Kaptio .

Vantar pening til að láta hlutina verða að veruleika

“Það er mikið af fólki með drifkraft til að búa til fullt af góðum hlutum, en stundum vantar smá pening til láta hlutina verða að veruleika. Þar kemur Community Fund inn” segir Kristján Ingi.

Við undirbúning og stofnun sjóðsins nutu stofnendur sjóðsins liðsinnis fyrirtækja og samtaka sem hafa mikla hagsmuni af virku grasrótarstarfi. Fyrirtækin lögðu saman til stofnfé sjóðsins, sem er tvær milljónir, og er ætlunin að veita þeim pening til góðra verka á næstu tólf mánuðum. “Ef þetta gengur vel og hefur tilætluð áhrif, þá reynum við að safna í sjóðinn aftur fyrir næsta ár á eftir,” segir Kristján.

Allir geta sótt um sem vilja

Úthlutunarnefnd sjóðsins er ásamt þeim Kristjáni Inga og Guðbjörgu Rist hjá Northstack skipuð reynsluboltum úr bransanum, Hjálmari Gíslasyni frá Investa, Arndísi Ósk Jónsdóttur, CHRO hjá Tempo og Vigni Erni Guðmundssyni, sérfræðingi hjá SUT.

“Hugmyndin kviknaði hjá okkur, eftir að hafa verið lengi í því hlutverki að búa til grasrótarsamfélög í kringum ýmsa tækni. Þar má helst líta til Javascript forritarasamfélagsins sem Kristján hefur verið mikill drifkraftur í. Oft vantaði smá pening til að láta hluti gerast, og það sem tók mestan tíma var að redda þessum pening. Við sáum fram á að með svona sjóði væri hægt að styðja við vöxt og þróun tæknigeirans,” segir Kristinn Árni, einn af stofnendum Northstack.

Allar upplýsingar um sjóðinn og umsóknareyðublað eru á vefnum communityfund.co “Við svörum öllum, og reynum að svara mjög hratt. Sjóðurinn er með einfalt umsóknarferli, mjög litla yfirbyggingu og allir geta sótt um sem vilja” segir Kristján að lokum.