Félagið Hópsnes ehf. hefur fengið heimild Samkeppniseftirlitsins til kaupa á öllu hlutafé Hringrásar hf., en félögin samþykktu viðskiptin 19. júlí síðastliðinn. Seljandi bréfanna er sjóður í stýringu Gamma, sem er nú í eigu Kviku banka, en um er að ræða sjóðinn Gamma: Credit Opportunity Fund.

Þar sem starfsemi fyrirtækjanna var yfir veltumörkum sem Samkeppniseftirlitið miðar við teljast kaupin vera samruni í skilningi samkeppnislaga, en stofnunin telur ekki forsendur til að aðhafast frekar.

Bæði fyrirtækin hafa starfað við móttöku og meðhöndlun úrgangs, en Hópsness hefur þó verið að takmörkuðu leiti að taka á móti brotajárni. Jafnframt segir stofnunin að það liggi fyrir að keppinautar með umtalsverðan markaðsstyrk muni áfram starfa á mörkuðum málsins.

Þó telur stofnunin tilefni til að fylgjast með samþjöppun á þessum markaði enda séu markaðir fyrir meðhöndlun úrgangs að miklu leyti samþjappaðir og tiltölulega fá fyrirtæki starfi á þessu sviði hér á landi.

Hins vegar muni kaup Hópsnes á öllu hlutafé Hringrásar ekki leiða til þess að markaðsráðandi staða verði til eða styrkist og því verði viðskiptin hvorki ógilduð né þeim sett skilyrði.