Fjárfestirinn bandaríski Carl Icahn er þekkt nafn í fjármálaheiminum. Auk þess sem hann hefur notið góðs gengis í fjárfestingum sínum á heildina litið er hann frægur fyrir aktívisma sinn þegar kemur að breytingum á skattafyrirkomulagi í Bandaríkjunum. Icahn hefur þó átt betri ár en það síðasta, en þá lækkaði virði fjárfestingarsjóðs hans um 18%.

Helst varð þetta virðistap í síðasta ársfjórðungi 2015, en þá féll virði sjóðsins um 15%. Helst eru það fjárfestingar sjóðsins í fyrirtækjum sem stunda viðskipti með olíu og afleiddar eldsneytisvörur, en eins og flestum er kunnugt hefur hráolíuverð náð lægstu lægðum sem hafa þekkst árum saman þessa dagana.

Til að mynda fjárfesti sjóðurinn í Cheniere Energy síðasta sumar, en keypti þá hlut fyrir 1,3 milljarða Bandaríkjadala. Síðan þá hefur gengi hlutabréfa fyrirtækisins lækkað um heil 70%.

Tap sjóðsins nam einhverjum 1,2 milljörðum Bandaríkjadala. Það jafngildir rétt rúmlega 156 milljörðum íslenskra króna. Meðal annars hefur sjóðurinn fjárfest í hlutabréfum Apple, Hertz og Netflix.