Verðbréfasjóðurinn IS Ríkisskuldabréf löng - einnig þekktur sem Sjóður 7 - náði mestri ávöxtun innlendra verðbréfa- og fjárfestingarsjóða rekstrarfélaga árið 2017. Virði eigna sjóðsins, sem er í rekstri Íslandssjóða, dótturfélags Íslandsbanka, jókst um rúmlega 10% á árinu miðað við þann 29. desember. Hrein eign sjóðsins er nú um 20,4 milljarðar króna.

IS Ríkisskuldabréf löng er skuldabréfasjóður í virkri stýringu. Eignir sjóðsins eru einkum ávaxtaðar í skuldabréfum útgefnum af eða með ábyrgð ríkissjóðs, svo sem ríkisskuldabréfum, ríkisvíxlum, íbúðabréfum og húsbréfum Íbúðalánasjóðs. Sjóðurinn hefur einnig heimild til fjárfestinga í innlánum fjármálafyrirtækja og afleiðum. Verðtryggð skuldabréf - einkum íbúðabréf og ríkisbréf - mynda meginþorra af eignum sjóðsins.

Ávöxtunarviðmið IS Ríkisskuldabréf löng eru skuldabréfavísitölur til tíu ára. Verðtryggða vísitalan hækkaði um 12,3% á árinu en óverðtryggða vísitalan hækkaði um 5%. Almennt hækkaði aðalvísitala skuldabréfa um 9,3%. Ávöxtun sjóðsins var þannig lítillega undir viðmiði, en umfram ávöxtun skuldabréfamarkaðarins.

Alls voru 69 innlendir sjóðir í rekstri átta rekstrarfélaga allt árið um kring. Í lok árs nam heildarvirði þeirra rúmlega 430 milljörðum króna.

Þeir fimm sjóðir sem skiluðu mestri ávöxtun í fyrra eiga það sameiginlegt að vera skuldabréfasjóðir með langan meðallíftíma. Slíkir sjóðir voru átta talsins á árinu og skiluðu ávöxtun á bilinu 7,5-10,1%. Sjóðirnir, sem allir eru verðbréfasjóðir, fjárfesta í skuldabréfum og peningamarkaðsgerningum með ábyrgð íslenska ríkisins, en lítill munur var á ávöxtun þeirra. Umræddir sjóðir eru Sparibréf verðtryggð (í rekstri Landsbréfa, dótturfélags Landsbankans) með 9,6% ávöxtun, Stefnir - Ríkisskuldabréf verðtryggð með 9,4% ávöxtun og Stefnir - Ríkisverðbréfasjóður langur með 9,3% ávöxtun (í rekstri Stefnis, dótturfélags Arion banka) og GAMMA: INDEX í stýringu Gamma Capital Management með 8,9% ávöxtun.

Töldu verðbólguálagið of lítið

„Í upphafi árs töldum við verðtryggð skuldabréf vera undirverðlögð og vorum því yfirvigtuð í löngum verðtryggðum bréfum umfram löng óverðtryggð bréf. Okkur fannst verðbólguálagið of lágt, enda var það í sumum tilfellum undir verðbólgumarkmiði Seðlabankans,“ segir Ingólfur Snorri Kristjánsson, forstöðumaður skuldabréfastýringar hjá Íslandssjóðum.

„Í kringum sumarið, yfir hánnatíma ferðaþjónustunnar, fór verðbólguálagið að aukast og verðtryggð bréf fóru að skila meiri ávöxtun heldur en óverðtryggð. Almennt voru menn að búast við frekari styrkingu krónunnar á miðju ári, sem ekki gekk eftir. Að sama skapi var viðskiptaafgangurinn að minnka hraðar en menn voru að spá. Síðan spiluðu hræringar í stjórnmálum inn í hækkun á verðbólguálaginu. Eftir stjórnarslitin mynduðust væntingar um minna aðhald í ríkisfjármálum sem og aukna verðbólgu.“

Ingólfur segir að horfur séu hóflegri verðbólgu næsta kastið, þó kjarasamningalotan næstu mánuðina sé þar stór óvissuþáttur. „Krónan hefur verið stöðug og við erum að sjá hægjandi verðhækkanir á húsnæðismarkaði. Það gæti vegið upp á móti verðbólguþrýstingi innfluttra kostnaðarliða. Við sjáum því fram á hóflega verðbólgu áfram. Það veltur samt á því hvernig kjarasamningar fara núna í vetur.“

Almennt náðu skuldabréfasjóðir Íslandssjóða góðum árangri á síðasta ári. Meðal þeirra tíu meðallangra skuldabréfasjóða sem náðu mestri ávöxtun voru sex í rekstri Íslandssjóða. Slíkir sjóðir voru 23 talsins á árinu og skiluðu ávöxtun á bilinu 4,3-7,7%.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .