Fjárfestingarsjóður í eigu katarska ríkisins hefur tapað um 12 milljörðum dala það sem af er þessum ársfjórðungi á þremur fjárfestingum sínum og átta af tíu stærstu hlutabréfaeignum sjóðsins hafa lækkað í verði á tímabilinu. Kemur þetta fram í frétt Financial Times. Jafngildir óinnleyst gengistap sjóðsins því um 1.500 milljörðum króna.

Stærstur hluti tapsins kemur til vegna falls gengis bréfa Volkswagen bílaframleiðandans, en FT reiknast svo til að sjóðurinn hafi tapað um 8,4 milljörðum dala á þeirri eign. Þá á sjóðurinn 8,2% hlut í Glencore, miðlunarhúsi sem hefur lækkað verulega í verði undanfarið og nemur bókfært tap sjóðsins á þeirri fjárfestingu um 2,7 milljörðum dala. Lækkun hlutabréfa í Búnaðarbanka Kína hefur svo skilað 650 milljóna dala tapi.

Fleiri fjárfestingar hafa farið illa fyrir fjárfestingarsjóðinn, því hlutabréf Royal Dutch Shell, Barclays og Siemens hafa lækkað í fjórðungnum. Aðeins ein af tíu stærstu fjárfestingum sjóðsins hefur skilað jákvæðri ávöxtun, en það er hlutur í franska byggingarfyrirtækinu Vinci. Spænska veitufyrirtækið Iberdrola hefur staðið í stað á hlutabréfamörkuðum.