Fjárfestingarfélagið Kjölfesta hefur keypt 30% hlutafjár í velferðarfyrirtækinu EVU ehf., en umfangsmesta starfsemi EVU er rekstur á Sinnum ehf. Kolbrún Jónsdóttir, framkvæmastjóri Kjölfestu, segir mjög áhugavert að taka þátt í uppbygging á þjónustu við aldraða, fatlaða, sjúka og aðra þá sem þurfa á velferðarþjónustu að halda. „Okkur finnst spennandi að koma að uppbyggingu á velferðarsviði og teljum að EVA með Sinnum í fararbroddi sé að gera mjög áhugaverða hluti á því sviði,” segir hún.

Félag lífeyrissjóðanna

Fjárfestingarsjóðurinn Kjölfesta var settur á laggirnar í fyrrasumar. Stofnfé sjóðsins nam 4 milljörðum króna og fjárfestir félagið í óskráðum félögum. Að Kjölfestu koma 14 fagfjárfestar, þar af 12 lífeyrissjóðir og annars konar sjóðir. Hér má skoða hluthafalista Kjölfestu . Félagið á m.a. 30% hlut í Senu.

Samningar um kaupin voru undirritaðir á Heimilinu í Holtsbúð í Garðabæ þar sem Sinnum byggir upp dvalarheimili. Þar er nú verið að að ljúka endurbótum svo hægt sé að taka á móti fleiri íbúum í þau herbergi sem enn eru laus og hægt er að sækja um hjá Sinnum.

Í tilkynningu tekur Ásta Þórarinsdóttir framkvæmdastjóri EVU og Sinnum, í sama streng og telur hún það mikinn styrk fyrir félagið að fá Kjölfestu inn í eigendahópinn. „Fyrirtækið hefur vaxið hratt frá stofnun haustið 2007 og umfangsmesti rekstur EVU er Sinnum sem er nú leiðandi fyrirtæki í heimaþjónustu auk þess sem það annast rekstur sjúkrahótels, hvíldardvalar, vinnuprófana og dvalarheimilis. Alls starfa hjá fyrirtækinu um 78 starfsmenn. Það að fá fagfjárfesta eins og Kjölfestu inn í hluthafahópinn er mikil viðurkenning á því starfi sem unnið hefur verið en mestu skiptir þó að samstarfið felur í sér mikil tækifæri til frekari uppbyggingar því auk kaupa á 30% hlut í félaginu felur samkomulagið við Kjölfestu í sér áskriftarloforð um viðbótarhlutafé inn í ný verkefni á næstu misserum. Við höfum mjög metnaðarfullar hugmyndir um frekari uppbyggingu á þjónustu fyrir aldraða, sjúka og fatlaða og samstarfið við Kjölfestu gefur félaginu tækifæri til að taka mun stærri skref í þá átt.”

Kjölfesta fær einn fulltrúa í stjórn EVU. Sá verður Arnar Jónsson, framkvæmastjóri ALM fjármála. Stjórnarformaður félagsins verður áfram Ásdís Halla Bragadóttir og framkvæmdastjóri Ásta Þórarinsdóttir.

Hluthafar í EVU ehf. eftir kaupin eru auk Kjölfestu: Gekka ehf. sem er í eigu Ásdísar Höllu Bragadóttur og Aðalsteins Jónassonar og Flösin ehf. sem er í eigu Ástu Þórarinsdóttur og Gunnars Viðar.