FAST-2 ehf., dótturfélag FAST-1 slhf,  hefur gengið frá kaupum á eigninni Klettagörðum 13 í Reykjavík. VÍB, eignastýringarþjónusta Íslandsbanka, starfrækir sjóðinn FAST-1 slhf.

Fram kemur í tilkynningu frá sjóðnum að eignin að Klettagörðum 13 er 8.927 fermetrar að stærð og er leigð að fullu til N1. Ekki kemur fram í tilkynningunni af hverjum sjóðurinn keypti fasteignina.

Kaupin eru í samræmi við fjárfestingastefnu FAST-1 slhf., móðurfélags FAST-2 ehf. og er fjármögnun þeirra í samræmi við yfirlýsta fjárhagsskipan samstæðunnar. Eignin mun standa til tryggingar á útgáfu skuldabréfa FAST-1 slhf. líkt og aðrar eignir félagsins. Kaupverðið er trúnaðarmál.

Þetta eru fjarri því einu tengsl Íslandsbanka við N1. Þegar tilkynnt var um fjárhagslega endurskipulagningu N1 vorið 2011 kom m.a. fram að Íslandsbanki myndi eignast rúmlega 30% hlut í N1 miðað við kröfur á hendur BNT, móðurfélagi N1.