Gert er ráð fyrir að hlutdeild almennra lífeyrissjóða í tekjum af almennu tryggingagjaldi til jöfnunar og lækkunar örorkubyrði verði lækkuð um tuttugu prósent. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag. Gert er ráð fyrir í nýju fjárlagafrumvarpi að hlutdeildin muni lækka um tuttugu prósent næstu fimm árin þar til hlutdeildin hefur fjarað út en í dag er hún 0,325% af tryggingagjaldinu.

Harpa Ólafsdóttir, stjórnarformaður Gildis-lífeyrissjóðs, segir að sjóðurinn ætli sér að mótmæla fjárlagafrumvarpinu. „Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í tengslum við samkomulagið árið 2005 kom fram skýr afstaða af hálfu aðila vinnumarkaðarins, svo og ríkisins, að ekki væri litið á örorkuframlagið sem tímabundna ráðstöfun heldur sem nauðsynlegt framlag af hálfu ríkisins til þess að jafna ólíka örorkubyrði lífeyrissjóðanna,“ segir Harpa.