Fjármálaeftirlitið hefur gert fjölda athugasemda við starfsemi Stafa Lífeyrissjóðs en þetta kemur fram í niðurstöðum eftirlitsins við athugun á starfsemi sjóðsins. Á meðal þess sem eftirlitið gerir alvarlega athugasemd við eru fjárfestingar og flokkun lífeyrissjóðsins á óskráðum verðbréfum og segir í niðurstöðu eftirlitsins að það líti það alvarlegum augum að stjórnendum sjóðsins hafi ekki verið kunnugt um stöðu sjóðsins í óskráðum fjárfestingum.

Fjármálaeftirlitið gerir einnig athugasemd við að sjóðurinn gæti ekki nægjanlega að veðhlutföllum þegar fjárfest er í skuldabréfum tryggðum með veði í sérhæfðu atvinnuhúsnæði. Þá gerir Fjármálaeftirlitið alvarlega athugasemd við að farið hafi verið út fyrir heimildir laga hvað varðar fjárfestingar í sjóðum sem ekki lúta opinberu eftirliti.

Í yfirlýsingu frá Stöfum er farið yfir athugasemdir eftirlitsins og þær raunar staðfestar og útskýrðar nánar. Til að mynda gerði Fjármálaeftirlitið athugasemd við að nokkrar lánveitingar hafi verið veittar sem ekki eru í samræmi við lánareglur sjóðsins. Í yfirlýsingu sjóðsins kemur fram að um sé að ræða lán að fjárhæð samtals 6 milljónir króna sem sjóðurinn hafi ekki orðið fyrir tjóni vegna lánveitinganna.

Niðurstaða athugunar á starfsemi Stafa lífeyrissjóðs .