Heildareftirspurn í hlutafjárútboði Sjóvár var 35,7 milljarðar króna en 4,7 milljarða hlutur var seldur. Þetta kemur fram í tilkynningu sem Sjóvá sendi Kauphöll Íslands í dag. Útboðinu lauk í fyrradag.

Heildarfjöldi móttekinna áskrifta var um 7.800. Útboðsgengi í tilboðsbók A, þar sem tekið var við áskriftum að fjárhæð kr. 100.000 til kr. 10.000.000, er 11,90 krónur á hlut og verða 10% hluta í félaginu seldir á því verði. Útboðsgengi í tilboðsbók B, þar sem tekið var við áskriftum að fjárhæð yfir kr. 10.000.000, er 13,51 króna á hlut og verða 13% hluta í félaginu seldir á því verði. Heildarstærð útboðsins nemur 23% af útgefnu hlutafé í félaginu eða 366.279.829 hlutum.

„Í tilboðsbók A bárust um 7.600 áskriftir að fjárhæð 20,4 milljarðar króna. Mikil þátttaka í tilboðsbók A leiðir til þess að úthlutun á hverja áskrift, að undanskildum áskriftum fastráðinna starfsmanna Sjóvár og viðskiptavaka, nemur að hámarki 227 þúsund krónum að kaupverði. Áskriftir undir framangreindri fjárhæð og áskriftir fastráðinna starfsmanna Sjóvár eru ekki skertar. Áskriftir viðskiptavaka eru skertar minna,“ segir í tilkynningu Sjóvár.

Í tilboðsbók B bárust 232 áskriftir að fjárhæð 15,3 milljarðar króna. Verða hlutir seldir til hæstbjóðenda í útboðinu. Samþykktar áskriftir voru 32. Ekkert kemur í hlut þeirra sem buðu undir 13,51 krónu á hlut.

Seljendur í útboðinu eru SF 1 slhf., SAT eignarhaldsfélag hf. og Íslandsbanki hf.