Heildarstærð þeirra verðbréfa- og fjárfestingasjóða Landsbankans sem Landsvaki dróst saman um rúm 40% á síðasta ári. Stærð þeirra 22 sjóða sem Landsvaki rekur var 44 milljarðar króna um síðustu áramót, en hafði verið 76 milljarðar króna í árslok 2008. Landsvaki er að fullu í eigu Nýja Landsbankans.

Á árinu 2009 stofnaði rekstarfélagið tvo nýja sjóði en sleit fimm. Í tilkynningu frá Landvaka vegna uppgjörsins kemur fram að hagnaður af rekstri sjóðanna hafi numið 39,7 milljónum króna og að eigið fé félagsins hafi verið 323,3 milljónir króna. Þar segir ennfremur að þær aðstæður sem hafi skapast við fall bankanna í byrjun október 2008 hafi haft „mikil áhrif á rekstarumhverfi félagsins árið 2009 og ollu mikilli rýrnun á eignum einstakra sjóða í rekstri Landsvaka.“

Landsvaki rak meðal annars peningamarkaðssjóði Landsbankans áður en þeim var slitið í lok árs 2008. Þeir sem áttu í þeim sjóðum fengu þá 68,8% af eign sinni greidda út í kjölfar þess að Landsbankinn hafði keypt út úr sjóðunum fyrirtækjaskuldabréf á miklu yfirverði.