*

sunnudagur, 21. júlí 2019
Innlent 11. mars 2018 15:04

Sjómannaverkfallið beit í

Útflutningur sjávarafurða á meðan á sjómannaverkfallinu stóð dróst saman um rúmlega 20 milljarða milli ára.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Sjómannaverkfallið milli desember 2016 og febrúar 2017 litaði afkomu sjávarútvegs á síðasta ári, en Deloitte áætlar að afkoma greinarinnar hafi dregist saman um allt að þriðjung á síðasta ári. Útflutningur sjávarafurða á meðan á verkfallinu stóð dróst saman um tæp 37% milli ára, eða úr 58,2 milljörðum króna í 37 milljarða.

Erfitt er að meta fjárhagslegt tjón af sjómannaverkfallinu í heild sinni. Útflutningstekjur rýrnuðu um rúmlega 20 milljarða milli ára miðað við desember, janúar og febrúar. Rekstrarkostnaður, að því marki sem hann snýr að sjósókn, dróst saman vegna sjómannaverkfallsins á fyrstu tveimur mánuðum síðasta árs. Félögin báru hins vegar töluverðan kostnað af landvinnslu meðan á verkfallinu stóð en höfðu litlar sem engar tekjur.

Tekjur vegna útflutnings sjávarafurða námu 197 milljörðum króna á síðasta ári samkvæmt tölum Hagstofunnar. Jafngildir það 16% af útflutningstekjum Íslands. Drógust tekjurnar þónokkuð saman frá fyrra ári, þegar útflutningsverðmæti sjávarafurða námu rúmlega 237 milljörðum króna eða fimmtungi af útflutningstekjum. 

Í samtali við Viðskiptablaðið á meðan á verkfallinu stóð í desember árið 2016 sagði Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, að vænt tap vegna verkfalls til tveggja til þriggja mánaða gæti hlaupið á 50-60 milljörðum í tapaðar útflutnignstekjur.