Atvinnuleysi jókst talsvert á milli desember og janúar, samkvæmt mælingum Hagstofu Íslands sem og tölum Vinnumálastofnunar um skráð atvinnuleysi. Þetta segir meðal annars í Hagsjá Landsbankans sem fjallar um vinnumarkaðinn, þar sem segir meðal annars að „sjómannaverkfallið hafði augljós áhrif“.

„Þar kemur m.a.til árstíðasveifla, en sjómannaverkfallið og afleiðingar þess, t.d. á fiskvinnslu, höfðu einnig mikil áhrif. Síðustu 12 mánuði hefur atvinnuleysi haldið áfram að minnka. Það var 3,1% samkvæmt mælingum Hagstofunnar og skráð atvinnuleysi var 2,3%. Samsvarandi tölur í janúar 2016 voru 3,9% og 2,9%,“ segir í greiningunni.

Einnig bendir Hagfræðideild Landsbankans á að samhliða aukinni eftirspurn í hagkerfinu hefur eftirspurn eftir vinnuafli aukist talsvert á síðustu misserum og segja þau því að svipuð spenna sé komin í vinnumarkaðinn og oft áður. „Ætla má að eftirspurn eftir vinnuafli verði áfram mikil á næstu misserum og staða atvinnumála góð,“ segir í Hagsjánni.