Nýsköpun hvers konar hefur undanfarin ár og áratugi sett mark sitt á æ fleiri svið í sjávarútvegi. Jafnvel sjóveikin er viðfangsefni fræðimanna sem hafa hanna búnað sem nýta mætti til að draga úr sjóveiki og annarri hreyfiveiki.

Hannes Petersen læknir hefur um árabil stundað rannsóknir á sjóveiki. Fyrr mánuðinum kynnti hann sjóveikihermi sem settur hefur verið upp í Háskólanum í Reykjavík. Þar verður hægt að fylgjast með heilastarfsemi, hjartslætti og vöðvahreyfingum fólks við aðstæður sem geta kallað fram sjóveiki.

Hannes segir að þennan hermi megi nota til þess að sjóa sjómenn áður en þeir stíga á skip eða bát. Menn geti sumsé stigið upp í þennan hermi áður en þeir halda á sjóinn og þar með verið búnir að venjast hreyfingunni áður en siglt er af stað.

„Það er svo mikilvægt að ef að sjómaður er að fara út á sjó, og veit að hann er að fara eftir viku, að taka hann í æfingar, hálftíma á dag, fjóra daga eða fimm daga áður en hann fer, til að minnka sjóveikiupplifun,“ sagði Hannes í viðtali við Fiskifréttir í júlí síðastliðnum, þegar alþjóðlegt sjóveikiþing var haldið á Akureyri.

Þá var búnaðurinn tekinn í notkun við Háskólann á Akureyri, en nú er hann kominn suður og verður hér til taks fyrir Háskóla Íslands og Landspítalann auk Háskólans í Reykjavík.

Hannes leggur áherslu á að sjóveikisrannsóknir skipti máli fyrir öryggi á sjó, ekki síður en vellíðan og heilbrigði sjómanna. Slysahættan eykst þegar einkenni sjóveikinnar segja til sín, jafnvel þótt væg séu.