Á síðustu vikum hefur eftirspurn eftir víetnamska eldisfiskinum pangasius í Norður-Evrópu hrunið í kjölfar sjónvarpsmyndar sem umhverfissamtökin World Wide Fund (WWF) hafa lagt nafn sitt við en myndin var sýnd í Þýskalandi fyrir einum mánuði. Fiskifréttir greina frá þessu í dag.

Einkum hafa þýskir neytendur snúið baki við pangasiusnum en þar hefur verið stór markaður fyrir þennan fisk og neyslan á síðasta ári numið um 40.000 tonnum.

Í myndinni sem ber nafnið ,,Lygin um pangasiusinn” er dregin upp dökk mynd af eldinu í Víetnam, sagt að í eldistjörnunum sé vatn úr skólp- og efnamenguðu Mekong fljótinu auk þess sem notað sé ótæpilegt magn lyfja við eldið.

Á sjávarútvegsvefnum Seafoodsource.com kemur fram að þær alhæfingar sem fram voru færðar í sjónvarpsmyndinni hafi haft mjög skaðleg áhrif á öll eldisfyrirtæki í Víetnam þrátt fyrir að mörg þeirra hafi fengið alþjóðlegar vottanir um að vara þeirra sé heilnæm. Þannig hafi 379 víetnamskar eldisstöðvar staðist kröfur ESB þar að lútandi og hafa leyfi til að selja til ríkja sambandsins.

Nánar á vef Fiskifrétta .