Tölvurisinn Apple hefur snúið sér til höfundar iTunes, til að aðstoða sig við að þróa sjónvarpstæki, að því er Bloomberg hefur eftir heimildarmönnum. Jeff Robbin, sem bjó til iTunes og kom að gerð iPod, leiðir verkefnið.

Skömmu fyrir andlát sitt sagði Steve Jobs höfundi ævisögu sinnar, Walter Isaacson, að hann hafi loksins komist að því hvernig hægt sé að gera sjónvarp sem tengir öll tæki Apple á einfaldan hátt. Isaacson greindi frá orðum Jobs í viðtali við fréttaskýringaþáttinn 60 mínútur fyrr í vikunni. Jobs á að hafa sagt að viðmót tækisins verði eins einfalt og hægt er að hugsa sér.

Apple hefur ekki viljað staðfesta að unnið sé að hönnun nýs sjónvarpstækis innan félagsins. Til þessa hefur eina tæki félagsins sem tengist sjónvarpi verið Apple TV, sem tengir meðal annars iTunes við sjónvarpið.