Sigurður Einarsson fór hörðum orðum um málatilbúnað ákæruvaldsins í Al-Thani málinu þegar VB Sjónvarp ræddi við hann í nóvember 2012. Sigurður krafðist frávísunar fyrir sitt leyti á þeim grunni að lögregla hafi í nánar tilgreindum atriðum staðið ranglega að verki þegar hún leitaði eftir og fékk því framgengt að alþjóðalögreglan gæfi út svokallaða Red Notice eftirlýsingu á hendur honum 11. maí 2010 þegar hann var staddur í Bretlandi, þar sem hann átti heimili.

Í dómi Hæstaréttar sem féll í dag segir hvað þetta varðar: „Við flutning málsins fyrir Hæstarétti hafa röksemdir, sem tengjast framangreindu, ekki verið færðar fram með þeim hætti að unnt sé að sjá hvernig hugsanlegir annmarkar á framkvæmd áðurnefndrar eftirlýsingar gagnvart ákærða Sigurði gætu leitt til þess að vísa ætti máli þessu frá héraðsdómi að því er hann varðar. Verður því ekki orðið við aðalkröfu hans á þessum grunni.“