Núna í upphafi nýs árs taka gildi breytingar á lögum um virðisaukaskatt og vörugjöld en þær hafa áhrif á verðlag á flestum vöru- og þjónustuliðum. Breytingar á virðisaukaskatti ættu að hafa áhrif á verðlag strax í upphafi nýs árs en ætla má að breytingar á vörugjöldum skili sér á næstu vikum. Alþýðusambandið tók nýverið saman upplýsingar yfir helstu verðlagsbreytingar sem fylgja lagabreytingunum.

Ein mesta breytingin er um 21% verðlækkun á stærri raftækjum sem hafa borið 25% vörugjöld. Það eru sjónvörp, útvörp, hljómflutningstæki, hátalarar, myndbandstæki og heimabíókerfi. Virðisaukaskattur á þeim vörum lækkar jafnframt úr 25,5% í 24%. Þá lækka stærri raftæki sem bera 20% vörugjöld um 18% í verði en þar má nefna vörur eins og þvottavélar, eldavélar, kæliskápar og örbylgjuofnar.

Neðra þrep virðisaukaskatts hækkar á sama tíma úr 7% í 11% og hækkar verð á vörum í þeim flokki um 3,7%. Dæmi um vörur sem falla undir þann flokk eru bækur, matvörur, gistiþjónusta, veitingaþjónusta og raforka til húshitunar.