Stephen Butt, meirihlutaeigandi og aðalstjórnandi fjárfestingafélagsins Silchester International, fer á skjön við þá þróun sem á sér nú stað innan fjármálaheimsins og hækkaði laun sín á fjárhagsárinu sem lauk í apríl. Telegraph segir frá þessu.

Butt greiddi sér 16,5 milljónir punda í árslaun og síðan 8,7 milljónir í arð, en hann á rúmlega helmingshlut í Silchester. Sjóðurinn sem starfar í London hefur skilað 15% arðsemi ár hvert á 13 ára tímabili.

Árangur Silchester er mun betri en flestra vogunarsjóða í dag, en til að mynda tilkynnti Morgan Stanley að aðeins 15 af 350 vogunarsjóðum á vegum fjárfestingabankans myndu skila jákvæðri afkomu í lok annars fjórðungs.