Um 70,3 prósent stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins treysta Hönnu Birnu Kristjánsdóttur betur til að gegna embætti formanns flokksins en Bjarna Benediktssyni, sitjandi formanni. 29.7 prósent treysta hins vegar Bjarna betur.  Hanna Birna er fyrrverandi borgarstjóri í Reykjavík.

Kemur þetta fram í nýrri skoðanakönnun sem markaðsrannsóknafyrirtækið MMR vann fyrir Viðskiptablaðið.

Stuðningur við Hönnu Birnu mælist nú mun meiri en í könnun Gallup sem gerð var í byrjun september. Þar mældist hún með 51,4 prósenta stuðning sjálfstæðismanna, sem þó var mun meiri en stuðningur við Bjarna, sem næstur kom í röðinni með 24,3 prósent.

Þessi mikli munur milli kannananna tveggja skýrist væntanlega að hluta til af því að nú voru þátttakendur aðeins beðnir að taka afstöðu til tveggja formannsefna en í könnun Gallup voru fleiri formannsefni í boði. Þá kann lítill stuðningur við Bjarna að endurspegla almenna óánægju með stjórnmálin og helstu forystumenn flokkanna.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag. Áskrifendur geta nálgast pdf útgáfu af blaðinu undir liðnum tölublöð hér að ofan.