*

laugardagur, 4. desember 2021
Erlent 26. október 2021 09:15

Sjötta félagið yfir eina billjón

Hlutabréf Tesla tóku stórt stökk í gær og er félagið nú meira virði en næstu níu bifreiðaframleiðendur samanlagt.

Ritstjórn
Auður Elon Musk jókst talsvert í gær.
EPA

Hlutabréf Tesla tóku stórt stökk í gær, hækkuðu um 12,66% áður en markaðir lokuðu, í kjölfar fregna þess efnis að Hertz hefði pantað 100 þúsund bifreiðar sem skulu afhendast fyrir lok næsta árs. 

Hækkunin þýddi að heildarvirði félagsins fór í fyrsta sinn yfir eina billjón dollara. Félagið varð þar með aðeins hið sjötta til að ná því marki en fyrir eru þar Apple, Microsoft, Amazon og Alphabet, móðurfélag Google. Facebook hefur einnig náð yfir þennan þröskuld en síðan þá hafa bréf félagsins lækkað. 

Vöxtur Tesla hefur verið ævintýralegur en það tók félagið innan við tvö ár að hækka úr 100 milljörðum dollara upp í eina billjón. Til samanburðar tók það Amazon átta ár að ná sama stökki. Þá má geta þess að heildarvirði Tesla er núna meira en næstu níu stærstu bifreiðaframleiðenda heimsins. Þá er virði hlutar Elon Musk, stofnanda Tesla, í félaginu meira en heildarvirði Toyota.

Stikkorð: Tesla