Eftirspurn eftir áli mun dragast meira saman en í kjölfar efnahagshrunsins árið 2008 samkvæmt spá greiningarfyrirtækisins CRU. Fyrirtækið spáir 8% samdrætti í eftirspurn eftir áli í heiminum.

CRU áætlar að 90% af álverum í Kína hafi verið rekin með tapi þegar álverð fór lægst í Kína í mars. Enn séu 70% þeirra í taprekstri. Önnur ríki hafa lengi sakað Kínverja um að flytja út óarðbæra álframleiðslu og þannig haldið niðri verð á áli í heiminum. Meirihluti alls áls í heiminum er framleiddur í Kína. Álverð hefur fallið úr 1.800 dollurum á tonnið í ríflega 1.400 dollara á tonnið frá miðjum janúar til dagsins í dag og hefur ekki verið lægra frá árinu 2009. CRU spáir því að álverð falli í um 1.350 dollara á tonnið síðar á árinu áður en það nái viðspyrnu á ný.

Í lok ársins munu fjórar milljónir tonna af áli safnast upp í heiminum samkvæmt spá CRU. Þá er búist við að endurvinnsla á áli dragist einnig töluvert saman vegna verðfallsins. BMO Capital Markets spáir því að slökkt verði á um 7% af framleiðslugetu álvera heimsins á þriðja ársfjórðungi. Það samsvarar um 4,2 milljóna tonna framleiðslugetu á ári. Árið 2025 á sú tala að hafa hækkað í tíu milljónir tonna gangi spá BMO eftir. Það samsvarar því að um eitt af hverjum sex álverum verði tekið úr notkun á næstu fimm árum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .