Eigendur Serrano hafa opnað nýjan stað, sinn sjötta á Íslandi, í nýjasta stórhýsi Reykvíkinga, Höfðatorgi í Borgartúni. Skrifstofuturninum sem sumir telja að muni standa að mestu leyti auður á næstu árum. Eigendur Serrano eru Einar Örn Einarsson, framkvæmdastjóri Serrano Nordics, og  Emil Lárusson, framkvæmdastjóri Serrano ehf.

Einar og Emil eru fyrstu leigjendurnir sem flytja inn og þeir segja að eftir mikla umhugsun þá hafi þeir ákveðið að halda sig við áætlanir sínar um að opna í Höfðatorginu.

Í tilkynningu er haft eftir þeim að þeir segist vera að horfa til lengri tíma með staðinn. Það sé eftir sem áður mjög mikið af stórum vinnustöðum í nágrenninu og það hafi lengi vantað fleiri valkosti fyrir fólk í hádeginu og á kvöldin á þessu svæði.

Nýi staðurinn er líka sá fyrsti sem hannaður er með nýjar áherslur Serrano í huga, en í stað pappadiska og plasthnífa eru nú komnir alvöru diskar og hnífapör. Einnig er betri aðstaða fyrir fjölskyldufólk að koma með börn og borða á staðnum. Sömu áherslubreytingar hafa verið gerðar á Serrano í Smáralind segir í tilkynningu.

Fyrsti staðurinn utan Íslands opnaði í Vallingby í Stokkhólmi fyrr á árinu og þeir Emil og Einar stefna á að opna næsta stað í desember, enda hafa þeir fengið alveg ágætis viðtökur hjá Svíunum.