Um 1.000 flugmenn skandinavíska flugfélagsins SAS hófu verkfall klukkan tvö á íslenskum tíma. Er þetta sjöunda verkfall flugmanna SAS á aðeins tólf árum.

Verkfallið mun valda félaginu gríðarlegum skaða. Samkvæmt upplýsingum danska viðskiptablaðsins Börsen gæti tapið numið 1,3 milljörðum ísl. króna á dag meðan verkfallið varir. Gengi SAS hefur lækkað lítilega í dag en gengið hefur hrunið síðustu mánuði og lækkað um 50% það sem af er ári.

Helmingur allra flug SAS samstæðunnar falla niður vegna verkfallsins.
Helmingur allra flug SAS samstæðunnar falla niður vegna verkfallsins.
© epa (epa)

Þungt hljóð í stjórnarformanninum

Carsten Dilling stjórnarformaður SAS sagði í viðtali við Börsen fyrr í dag að staðan væri mjög alvarleg fyrir félagið eftir að slitnaði upp úr viðræðum við flugmennina stuttu fyrir hádegi á dönskum tíma. Hann sagði að verkföll hefðu kostað félagið gríðarlegar fjárhæðir í gegnum tíðina og nú þyrfti að fella niður mikinn fjölda fluga.

Félagið flytur nú um 30 þúsund farþega hvern dag og aflýsa þarf um annarri hverri ferð flugsamstæðunnar, en verkfallið raskar ekki starfsemi dótturfélaganna SAS Connect og SAS Link.

Sakar SAS um að vilja ekki semja

Keld Bækkelund Hansen aðalsamningamaður Dansk Metal, stéttarfélags flugmanna hjá SAS, hélt því fram í dag við fjölmiðla að SAS hefði ekki áhuga á að semja heldur vildi heldur fara í fjárhagslega endurskipulagningu. Þessu neitar stjórnarformaður SAS staðfastlega. Dilling segir að ef svo hefði verið hefðu flugfélagið ekki eytt 17 dögum í að reyna að ná samningum við flugmennina.

Greinendur segja félagið í mikilli hættu

Greiningaraðilar í Skandinavíu segja að raunveruleg hætta sé á því að SAS verði gjaldþrota. Þeir benda á að ef verkfallið vari í 14 daga mun lausfé félagsins helmingast.