Heildarútgjöld á Íslandi til rannsóknar og þróunarstarfs (R&Þ) hafa farið vaxandi á Íslandi undanfarin ár og námu 55 milljörðum árið 2017 sem jafngildir 2,1% af vergri landsframleiðslu (VLF). Þetta kemur fram í nýrri skýrslu um frumkvöðla og nýsköpun, sem Reykjavík economics vann fyrir Íslandsbanka, þar sem litið á stöðu nýsköpunar á Íslandi og mikilvægi þess að skjóta frekari stoðum undir efnahagslíf.

Í skýrslunni kemur m.a. fram að einungis 18% útflutningstekna eigi uppruna sinn utan sjávarútvegs, útflutnings iðnaðarvara og ferðaþjónustu og telja skýrsluhöfundar að mikilvægt sé að hækka það hlutfall. Ýmislegt hefur þó áunnist í málaflokknum hér á landi undanfarin ár og hafa heildarútgjöld til R&Þ farið vaxandi á Íslandi undanfarin ár.

„Nýlega birti Hagstofa Evrópusambandsins (ESB) – Eurostat – tölur um R&Þ í 28 aðildarlöndum auk Noregs og Íslands. Samanburðurinn er Íslandi hagfelldur með sjöundu hæstu heildarútgjöldin til R&Þ,“ segir í skýrslunni og jafnframt að meðalútgjöld hinna 28 landa ESB voru 2,07%. Hæst eru útgjöldin í Svíþjóð sem leggur 3,4% af VLF til R&Þ.

Í greiningu Reykjavík economics kom meðal annars fram að nýsköpun er algengari í stærri fyrirtækjum en minni og að stór fyrirtæki séu oftar betur í stakk búin til að koma fram með nýjungar á markaði.

„Frumkvöðlar lítilla fyrirtækja oftar en ekki lykillinn að skapandi eyðileggingu, þ.e.a.s. að byltingarkenndum nýjungum.“