Gjafa- og styrktarsjóður Jónínu S. Gísladóttur og Hjartaheill, landssamtök hjartasjúklinga, standa straum af kostnaði við kaup á nýju hjartaþræðingartæki. Sjóður Jónínu leggur fram 75 milljónir króna. Sjóðurinn var stofnaður árið 2001 með 200 milljóna framlagi Jónínu og er honum ætlað að efla hjartalækningar á Landspítala.

Samtökin Hjartaheill leggja fram 25 milljónir, en samtökin eiga 25 ára afmæli á þessu ári og minnast tímamótanna því m.a. með styrkveitingunni.

Þetta kemur fram í frétt heilbrigðisráðuneytisins.

Hjartaþræðingartækið er af nýjustu og fullkomnustu gerð. Það er búið stafrænum myndskynjara, en með honum fást aukin myndgæði í hjartaþræðingarrannsóknum og hægt er að komast af með minni geislun á sjúklinga og starfsfólk.

Heildarkostnaður við nýja hjartaþræðingarstofu er áætlaður um 140 milljónir króna. Af þeirri upphæð greiðir Landspítali byggingarkostnað stofunnar sem er áætlaður um 40 milljónir króna.