Fjárfestingarsjóðurinn Arev N1 hefur keypt helmingshlut í fyrirtækinu Yggdrasil af stofnendunum Rúnari Sigurkarlssyni og Hildi Guðmundsdóttur. Þar með er Yggdrasill alfarið í eigu Arev N1, þar sem sjóðurinn átti fyrir helmingshlut í fyrirtækinu.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.

Yggdrasill er ein elsta verslun á Íslandi með lífrænt ræktaðar vörur, en fyrirtækið hefur stundað bæði heild- og smásölu frá árinu 1986.

Í kjölfar breytinga á eignarhaldi hefur Dina Akhmetzhanova verið ráðinn nýr framkvæmdastjóri Yggdrasils, en hún hefur samkvæmt tilkynningunni víðtæka reynslu af verkefnastjórnun og markaðsmálum hér á landi jafnt sem erlendis.

Fyrirtækið, sem fyrstu árin var rekið af þeim Rúnari og Hildi í litlum kjallara fjölbýlishúss, hefur vaxið hratt síðustu ár í kjölfar aukins áhuga almennings á lífrænt ræktuðum vörum. Yggdrasill rekur nú verslun á Skólavörðustíg auk þess sem heildsala er orðin umfangsmikill þáttur í rekstrinum. Rekstur heildsölu og smásölu Yggdrasils hefur verið aðskilinn og eru nú níu starfsmenn hjá heildsölunni en fjórir starfsmenn í verslun.

„Yggdrasill selur yfir 3.000 lífrænt ræktaðar vörutegundir. Auk matvara býður verslunin t.a.m. lífrænar snyrtivörur, hreinlætisvörur og fatnað, svo eitthvað sé nefnt,“ segir í tilkynningunni.

Rúnar og Hildur segja ekki alveg skilið við fyrirtækið sem þau stofnuðu fyrir 22 árum, því þau munu áfram sitja í stjórn Yggdrasils.

„Við munum halda áfram að þróa Yggdrasil í takt við það góða starf sem unnið hefur verið síðustu ár við kynningu og markaðssetningu á lífrænt ræktuðum vörum. Þekking almennings á gæðum lífrænna vara hefur aukist mikið og það er ekki síst frumkvöðlum á borð við Hildi og Rúnar að þakka. Við munum halda áfram að auka vöruúrval og stefnum jafnframt að því að efla smásöluverslunina enn frekar með aukinni þjónustu og fræðslu,“ segir Dina Akhmetzhanova í tilkynningunni.