Dótturfélag Sjóvár, SJ Fasteignir, hefur samþykkt kaup á fasteignum í Hong Kong að andvirði 782 milljóna Hong kong dala (6,8 milljarða króna), segir í tilkynningu frá seljendum.

Um er að ræða kaup í íbúðarhúsahverfi á Macau-skaganum í Hong Kong og eru það fyrirtækin Shun Tak Holdings og HongKong Land Holdings sem selja. SJ Fasteignir mun kaupa 68 einingar og greiða fyrir þær með reiðufé, segir í tilkynningunni.

Shun Tak, sem er í eigu auðkýfingsins Stanley Ho, á 51% í verkefninu, en Hongkong Landholdings á 49%. Í hverfinu verða einnig hótel og verslanir.

Íbúðirnar eru enn í byggingu og eru áætluð verklok síðla árs 2008 eða í ársbyrjun 2009.

SJ fasteignir keypti síðast skrifstofuhúsnæði í Belgíu í ágúst síðastliðnum fyrir um 15 milljarða króna.