Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq á Íslandi hækkaði um 1,14%, í 2.131,33 stig, á viðskiptadegi þar sem einungis tvö félög lækkuðu í virði, en heildarviðskiptin námu 4,5 milljörðum króna.

Félögin tvö sem lækkuðu voru Brim, sem lækkaði um 1,77%, niður í 38,90 krónur, í mjög litlum viðskiptum eða fyrir 10 milljónir króna, og Festi, sem lækkaði um 0,92% í 514 milljóna króna viðskiptum, en það var jafnframt næst mestu viðskiptin með bréf í einu félagi í dag, og nam lokagengi bréfanna 135,25 krónum.

Tvö félög stóðu svo í stað í viðskiptum dagsins, líkt og síðustu daga hélst gengi Heimavalla í 1,14 krónum í 12 milljóna viðskiptum, en síðan stóð gengi Símans í stað í 134 milljóna króna viðskiptum, í genginu 5,36 krónum.

Mesta hækkunin var hins vegar á gengi Icelandair eða fyrir um 4,34%, í 311 milljóna króna viðskiptum, og endaði gengið í 7,70 krónum. Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í morgun hófst viðskiptadagurinn einstaklega vel fyrir félagið eftir útkomu farþegatalna félagsins í gær, og nam hækkunin um tíma yfir 7%. Seinna sama daginn þurfti félagið að tilkynna um frestun flugferða vegna veðurs.

Næst mesta hækkunin í dag var á gengi bréfa Sjóvá, eða fyrir 3,41%, þegar gengið fór  í 19,70 krónur, eftir 254 milljóna króna viðskipti . Þar með náðu bréf félagsins sögulegu hámarki síðan viðskipti hófust með bréf félagsins 11. apríl 2014.

Mesta veltan eins og svo oft áður var með bréf Marel, eða fyrir 685 milljónir króna, en hækkunin nam 1,30%, upp í 622 krónur. Þriðja mesta veltan var með bréf Haga, eða fyrir 402 milljónir króna, en bréfin hækkuðu um 2,70%, upp í 47,50 krónur.

Gengi krónunnar veiktist í dag gagnvart helstu viðskiptamyntum, utan evrunnar, dönsku og sænsku krónunnar. Gengi Bandaríkjadals hækkaði um 0,45%, upp í 122,88 krónur og gengi breska pundsins hækkaði um 0,15%, í 161,27 krónur.