*

laugardagur, 18. september 2021
Innlent 8. apríl 2021 16:26

Sjóvá hækkar mest í Kauphöllinni

Icelandair lækkaði um 3,4% í Kauphöllinni í dag en flugfélagið hefur nú lækkað um 23% á tveimur mánuðum.

Ritstjórn

Mikið líf var í Kauphöllinni í dag þegar úrvalsvísitalan lækkaði um 0,3% í 6,4 milljarða króna veltu. Sjóvá hækkaði mest allra félaga eða um 3,6% í 237 milljóna króna veltu. Sjóvá hefur nú hækkað um 7% frá arðleysisdegi félagsins þann 15. mars síðastliðinn. VÍS hækkaði sömuleiðis um 2,6% í 530 milljóna króna viðskiptum. 

Mestu veltan var á hlutabréfum Kviku banka eða um 1,6 milljarðar króna en gengi félagsins lækkaði um 0,7% í dag og stendur nú í 21,2 krónum á hlut. Félagið hefur þó hækkað um 1,9% frá byrjun mánudags sem var fyrsti viðskiptadagur sameinaðs félags Kviku, TM og Lykils. 

Næst mesta veltan var með bréf Marel sem lækkuðu um 0,3% í 879 milljóna króna viðskiptum. Arion banki fylgdi þeim á eftir í 824 milljóna króna veltu en bankinn lækkaði um 0,8% í dag. 

Icelandair lækkaði mest allra félaga í dag og endaði daginn í 1,42 krónum á hlut. Gengi flugfélagsins lækkaði um 3,4% í viðskiptum dagsins og hefur nú lækkað um 23% á tveimur mánuðum.