Hagnaður af rekstri Sjóvár á þriðja ársfjórðungi nam 210 milljónum króna. Er það nokkru minna en á sama tímabili á síðasta ári þegar hagnaðurinn nam 851 milljón króna. Þetta kemur fram í árshlutauppgjöri fyrirtækisins sem birt var í gær.

Hagnaður af vátryggingastarfsemi nam 171 milljón króna, samanborið við 449 milljónir króna á síðasta ári. Þá nam hagnaður af fjárfestingastarfsemi 87 milljónum króna en hann nam 640 milljónum í fyrra.

Samsett hlutfall samstæðunnar var öllu meira í ár en í fyrra og var nú 101,3% samanborið við 93,2% á síðasta ári. Tjónahlutfall var 82,4% og kostnaðarhlutfall var 22,5%. Endurtryggingahlutfall var hins vegar -3,6%.

Sé litið til fyrstu níu mánaða ársins nam hagnaður samstæðunnar 415 milljónum króna, samanborið við 1.693 milljónir króna á sama tímabili í fyrra. Hagnaður af vátryggingastarfsemi nam 962 milljónum króna, en tap varð hins vegar af fjárfestingastarfsemi sem nemur 452 milljónum króna. Samsett hlutfall samstæðunnar var 96,5%.

„Vátryggingarekstur gekk vel á fyrstu níu mánuðum ársins. Í skráningarlýsingu frá í vor voru settar fram horfur um afkomu ársins 2014. Þar var gert ráð fyrir að raunvöxtur yrði í iðgjöldum, að samsett hlutfall yrði á bilinu 94-96% og að hagnaður fyrir skatta og afskriftir óefnislegra eigna yrði á bilinu 2,7 til 3,3 milljarðar króna. Útlit er fyrir að horfurnar um samsett hlutfall og raunvöxt iðgjalda standist en afkoma fjárfestinga veldur því að hagnaður sá sem reiknað var með í lýsingu mun ekki nást,“ segir Hermann Björnsson, forstjóri Sjóvár.

„Á þriðja ársfjórðungi hækka einstök stærri tjón tjónahlutfallið en slík einstök tjón eru innan eðlilegra sveiflna á vátryggingamarkaði. Enn sem komið er merkjum við ekki aukna tjónatíðni almennt, þó reikna megi með slíkri þróun á næstu misserum. Rekstrarkostnaður hækkaði á árinu vegna skráningarkostnaðar, aukinna sölulauna og markaðskostnaðar en 3,1% raunvöxtur eigin iðgjalda ásamt hagræðingaraðgerðum hefur leitt af sér lækkun kostnaðarhlutfalls milli fjórðunga eins og gert var ráð fyrir.“