Samkvæmt drögum að uppgjöri annars ársfjórðungs hjá Sjóvá hagnaðist félagið um 1.500 milljónir króna og var samsett hlutfall á fjórðungnum um 97%. Afkomu á fyrstu sex mánuðum ársins er 1.100 milljónir þar sem félagið tapaði rúmum 400 milljónum á fyrsta ársfjórðungi en samsett hlutfall það sem af er árs er nú 98%. Frá þessu er greint í fréttatilkynningu.

Sveiflur á eignamörkuðum skýra að nær öllu leyti viðsnúning á afkomu félagsins á milli fjórðunga. Áréttað skal að uppgjörið er enn í vinnslu og kann að taka breytingum fram að birtingardegi þann 19. ágúst næstkomandi.

Iðgjöld bifreiðatrygginga hjá einstaklingum voru felld niður í maímánuði vegna samdráttar í umferð og hagstæðrar tjónaþróunar. Lækkun iðgjalda vegna þessarar ráðstöfunar nemur um 650 milljónum króna og kemur að fullu fram á öðrum ársfjórðungi.