Úralsvísitalan hefur hækkað um 3,3% það sem af er degi. Er það nokkuð meira en í Evrópu en evrópska Stoxx Europe 600 vísitalan og breska FTSE 100 vísitalan hafa báðar hækkað um 0,3%-0,5% í dag. Hækkanir erlendis hafa verið raknar til minni ótta meðal að vextir verðir hækkaðir eins snarpt í Bandaríkjunum og áður var spáð.

Sjóvá hefur hækkað mest á íslenska markaðnum eða um 5%. Marel fylgir þar á eftir með 4,6% hækkun.

Viðmælendur Viðskiptablaðsins á fjármálamarkaði segja að hækkanir í Kauphöllinni megi m.a. rekja til þess að hlutabréfamarkaðir erlendis hafa verið grænir á föstudaginn og íslenski markaðurinn sé að fylgja eftir þeim hreyfingum að einhverju leyti í dag.

Sjá einnig: Legókallarnir komnir til Ísafjarðar

Einnig telja viðmælendur að 6,6-8,0 milljarða króna hlutafjárútboð Kerecis, sem tilkynnt var á föstudaginn, vera jákvætt merki fyrir markaðinn, ekki síst fyrir tryggingafélög sem áttu hlut í lækningavörufyrirtækinu. Líkt og Viðskiptablaðið sagði frá þá hefur Kirkbi, fjárfestingarfélag dönsku Lego-fjölskyldunnar skráð sig fyrir 5,3 milljarða króna. Verð á hlut í útboðinu er 78,19 Bandaríkjadalir, eða yfir 10 þúsund krónur. Til samanburðar þá bókfærði Sjóvá hlut sinn í Kerecis á genginu 3.320 krónur á hlut samkvæmt tilkynningu sem tryggingafélagið sendi til Kauphallarinnar í gær.